Samantekt um þingmál

Loftslagsmál

718. mál á 150. löggjafarþingi.
Umhverfis- og auðlindaráðherra.

Markmið

Að uppfylla samkomulag Íslands og Noregs við Evrópusambandið um sameiginlegt markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til 2030 innan ramma Parísarsamningsins.

Helstu breytingar og nýjungar

Frumvarpið felur í sér lagastoð fyrir reglugerðir sem ætlað er að innleiða reglugerð (ESB) nr. 2018/842 um sameiginlega ábyrgð og hins vegar reglugerð (ESB) nr. 2018/841 um landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt. Innleiðing reglugerðanna er lykilatriði í samkomulagi Íslands og Noregs við Evrópusambandið um sameiginlegt markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til 2030 innan ramma Parísarsamningsins. Að auki er lagt til að sett verði í lögin ákvæði sem er ætlað að innleiða skyldur samkvæmt kerfi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) sem snýst um að vakta, gefa skýrslu um og fá vottun fyrir losun frá flugi til þess að innleiða hnattrænt samkomulag.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um loftslagsmál, nr. 70/2012.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir aukinni umsýslu Umhverfisstofnunar í tengslum við innleiðingu tilskipunar (ESB) 2018/410 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB til að efla kostnaðarhagkvæmar losunarskerðingar og fjárfestingar sem fela í sér litla losun kolefna og á ákvörðun (ESB) 2015/1814. Gert er ráð fyrir að stofnunin innheimti þjónustugjöld vegna úthlutunar losunarleyfa frá og með 2020 og að fjölga þurfi um hálft stöðugildi hjá stofnuninni vegna þessa. Gert er ráð fyrir að árlegur kostnaður verði um 6 milljónir kr. en á móti komi þjónustutekjur að fjárhæð um 3 milljónir kr. Gera má ráð fyrir að viðbótarvinna vegna uppfærslu á núverandi reglum um losunarbókhald svari til fjölgunar um tvö stöðugildi hjá Umhverfisstofnun. Gert er ráð fyrir að árlegur rekstrarkostnaður verði um 25–30 milljónir kr. vegna þessa. Vegna innleiðingar reglugerðar (ESB) 2018/841 um að fella losun gróðurhúsalofttegunda og upptöku frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt er gert ráð fyrir að fjölga þurfi um eitt stöðugildi hjá Umhverfisstofnun vegna nýrra verkefna, eða sem nemur um 12 milljónum kr. Kostnaður vegna uppfærslu á hluta landnotkunar, breyttrar landnotkunar og skógræktar (LULUCF) í losunarbókhaldinu mun að mestu falla á Landgræðsluna og Skógræktina sem vinna viðkomandi hluta bókhaldsins. Gert er ráð fyrir að vinna við innleiðingu samsvari vinnu fjögurra sérfræðinga í tvö ár, eða um 48 milljónum kr. á ári, en árlegur rekstrarkostnaður eftir það svari til eins eða tveggja stöðugilda, eða 12–24 milljónum kr. Gert er ráð fyrir að kostnaður sem hlýst af frumvarpinu, verði það óbreytt að lögum, rúmist innan fjárheimilda málefnasviðs 17 Umhverfismál í gildandi fjármálaáætlun.

Afgreiðsla

Samþykkt með minni háttar breytingum.

Aðrar upplýsingar

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/841 frá 30. maí 2018 um að fella losun gróðurhúsalofttegunda og upptöku frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt inn í loftslags- og orkurammann fram til ársins 2030 og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 525/2013 og ákvörðun nr. 529/2013/ESB.

Reglugerð (ESB) 2018/842 frá 30. maí 2018 um bindandi árlega skerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda aðildarríkjanna frá 2021 til 2030 sem stuðlar að loftslagsaðgerðum til að uppfylla skuldbindingar samkvæmt Parísarsamningnum og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 525/2013.


Síðast breytt 02.07.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.